Fjarnemar

Fjarnemar og fjarnám við Háskólann á Akureyri

Sífellt fleiri velja að stunda fjarnám og nú er svo komið að um helmingur nemenda við Háskólann á Akureyri eru fjarnemar. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að mynda nemendahópa þar sem boðið er upp á fjarnám og því er námsframboðið skipulagt í samstarfi við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um allt land. Þar hafa nemendur vinnuaðstöðu, nettengingu, aðgengi að myndfundabúnaði og aðstöðu til próftöku. Námið fer að mestu fram um netið en til stuðnings eru myndfundir og upplýsingatæknin nýtt til hins ýtrasta. Mikilvægt er því að fjarnemar hafi aðgang að öflugri nettengingu (1 Mb eða meira). Fyrirkomulag fjarnámsins er mismunandi eftir greinum. Ýmist er það fullt nám í dagskóla eða nám sem er sniðið að þörfum þeirra sem stunda fjarnám samhliða starfi.

Tilhögun fjarnáms

Kennsla og samskipti fara ýmist fram á netinu, á myndfundum og í námslotum. Öll námskeið hafa heimasíðu í rafrænu kennslukerfi þar sem nemar hafa til dæmis aðgang að upptökum úr dagskóla, námsefni frá kennara og tækjum til samskipta, verkefnavinnu og próftöku.

Annað

 • Fyrirkomulag fjarnáms er sniðið að hverju fræðasviði og því er nokkur breytileiki á milli þeirra.
 • Fjarnemar greiða sömu skrásetningargjöld og aðrir nemendur við háskólann, kr. 75.000. Til sumra fræðslu- og símenntunarmiðstöðva þarf einnig að greiða hófleg aðstöðu- og próftökugjöld.
 • Umsóknarfrestur er til 5. júní.
 • Nánari upplýsingar eru veittar hjá viðkomandi sviðum.

Samstarfsaðilar um land allt

Lögð er rík áhersla á myndun námshópa þar sem boðið er upp á fjarnám. Með því móti myndast námssamfélag þar sem nemendur fá stuðning og hvatningu hver frá öðrum. Háskólinn hefur frá upphafi átt gott samstarf við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar víða um land en kennt er til yfir 20 staða. Þar standa nemum til boða námsver með vinnuaðstöðu og nettengingu, aðgengi að myndfundabúnaði og aðstöðu til próftöku. Lokapróf eru í flestum tilvikum tekin hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum.

Eftirtalið nám er í boði í fjarnámi

 • Félagsvísindi
 • Fjölmiðlafræði
 • Hjúkrunarfræði
 • Iðjuþjálfunarfræði
 • Kennarafræði
 • Líftækni
 • Lögreglufræði
 • Náttúru- og auðlindafræði
 • Nútímafræði
 • Sálfræði
 • Sjávarútvegsfræði
 • Viðskiptafræði

 


Námsflokkar Hafnarfjarðar - Miðstöð símenntunar | Menntasetrið við Lækinn | 220 Hafnarfirði | Sími 585 5860